Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Nöfn

Það er fátt skemmtilegra en að leita að nafni á nýjasta fjölskyldumeðliminn. Margar hugmyndir hafa eflaust brotist um í kolli verðandi foreldra og erfitt að finna rétta nafnið. Hér getur þú lesið um nöfn, hvað þurfi að hafa í huga við val á nafni, og umfram allt leitað eftir nafni í sérhannaðri Nafnavél.


Góðir punktar við nafnaval

Að velja nafn á barnið er eitthvað sem allir hlakka til. Það er síður en svo auðvelt verkefni að finna viðeigandi nafn. Vel er þekkt að nöfn afans eða ömmu sem gengið hafa frá einum til annars langt aftur í aldir eru ofarlega á blaði hjá foreldrum barnsins og er því úr vöndu að ráða. Margir eiga sér sitt uppáhalds nafn og hafa mögulega haft það bakvið eyrað lengi fyrir sitt fyrsta barn og nokkuð öruggt er að þeir sem gengið hafa í gegnum meðgönguna brutu heilan vel og lengi yfir því hvaða nafn væri æskilegast. Margir kjósa þó að bíða þangað til barnið er fætt og reyna þá að sjá hvaða nafn passi barninu best.

En nokkra punkta er gott að hafa hugfast þegar nöfn eru skoðuð:

  • Barnið mun líklega bera nafnið sem þú velur allt sitt líf svo velja ætti nafn sem passar barninu á öllum stigum lífsins. Barnið gæti til dæmis orðið atvinnurekandi, stjórnmálamaður, leikari eða tónlistarmaður og því gott að hafa slíkt hugfast þegar nafn er ákveðið. Mörg nöfn virðast krúttleg og sæt á litla krílið en passa kannski ekki á forsætisráðherra.

  • Ef nafnið er mjög sérstakt, gamaldags eða hefur hugsanlega aðra merkingu í tungumálinu (t.d. nafnið Ljótur) er mögulegt að barninu verði strítt af jafnöldrum sínum. Nokkuð er um að börn sem hafa gengið í gegnum mikla stríðni felli niður slík nöfn eða skipti um þegar þau sjálf hafa til þess vald við 18 ára aldur - eða fyrr með aðstoð foreldra.

  • Gæta þarf þess að skammstöfun nafnsins sé ekki óheppileg. Til dæmis gerist það oft að ættarnöfn eru sett aftan við venjulegt nafn á borð við Ragnar Ari Sveinsson Sandholt en skammstöfun þess nafns er RASS. Varla þarf að fjölyrða um stríðnimöguleika jafnaldra á slíku nafni.

  • Gott er að láta fornafn, milli og eftirnafn passa vel saman og oft er gott að segja nafnið upphátt í heild sinni og reyna þannig að sjá hvort það sé undarlegt. Þegar sum nöfn koma saman verður oft til merking eins og þessi málsgrein sannar: Ósk Ýr gekk rösklega með Brand Ara í afmælið til Egils Daða því hún var að verða of sein að sækja Leif Arnar og Loft Stein í leikskólann. Í leikskólanum voru einnig Lind Ýr, Líf Vera, Sól Hlíf og Hreinn Bolli.

  • Passa þarf að stytting nafnsins sé ekki óheppileg.

  • Mörg nöfn hafa sterka merkingu í trú, sögunni eða öðru. Til dæmis er Þröstur nafn á fugli og Ísak nafn úr biblíunni.