Það er fátt skemmtilegra en að leita að nafni á nýjasta fjölskyldumeðliminn. Margar hugmyndir hafa eflaust brotist um í kolli verðandi foreldra og erfitt að finna rétta nafnið. Hér getur þú lesið um nöfn, hvað þurfi að hafa í huga við val á nafni, og umfram allt leitað eftir nafni í sérhannaðri Nafnavél.
Margt er skrítið í kýrhausnum og eru reglur um nöfn þar engin undantekning. Skylt er að gefa barni nafn áður en það verður 6 mánaða gamalt. Ef foreldrar hafa ekki gefið barninu nafn innan þess tíma mun Hagstofan vekja athygli foreldra á því og skora á þá að gefa barninu nafn. Ef foreldrar gera ekkert í málinu frá því mánuður líður frá áminningu og gefa engar ástæður fyrir nafnaskortinum þá getur Hagstofan lagt dagsektir á foreldrana. Fullt nafn einstaklings er skírnarnafn hans eða skírnarnöfn, millinafn ef slíkt er til staðar, og kenninafn sem getur verið föður- eða móðurnafn eða ættarnafn. Dæmi um skírnarnafn er Sigurður, millinafn gæti verið Már og föðurnafn Sveinsson. Eiginnafn og millinafn mega aldrei vera fleiri en þrjú samtals. Sveinn Andri Már væri þannig gilt nafn en Sveinn Andri Már Karl væri ógilt.
Einnig skal það tekið fram að tölvukerfi Hagstofunar rúmar ekki nöfn lengri en 31 staf. Því bera margir nöfn þar sem millinafn er táknað með upphafsstaf eingöngu. Til dæmis Gunnlaugur A. Steinþórsson þar sem A stendur fyrir Arnar. Áhugasamir geta lesið svar Davíðs Oddsonar, sem þá var yfir hagstofunni samkv. lögum, sem hann gaf við spurningu um þetta á Alþingi í mars 2005.
Dæmi um leyfilegar samsetningar nafna:
- Eitt skírnar (Arnar Jónsson)
- Eitt skírnar og millinafn (Arnar Straumfjörð Jónsson).
- Tvö skírnar (Arnar Sveinn Jónsson).
- Tvö skírnarnöfn og millinafn (Arnar Sveinn Straumfjörð Jónsson).
- Þrjú skírnarnöfn (Arnar Sveinn Karl Jónsson).
Dæmi um samsetningar sem eru bannaðar:
- Fleiri en eitt millinafn (Arnar Straumfjörð Sandholt Jónsson)
- Ný ættarnöfn má ekki taka upp (Arnar Ipodsen Jónsson)
Ofangreindar upplýsingar voru fengnar hjá Dómsmálaráðuneytinu árið 2006.