Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Nöfn

Það er fátt skemmtilegra en að leita að nafni á nýjasta fjölskyldumeðliminn. Margar hugmyndir hafa eflaust brotist um í kolli verðandi foreldra og erfitt að finna rétta nafnið. Hér getur þú lesið um nöfn, hvað þurfi að hafa í huga við val á nafni, og umfram allt leitað eftir nafni í sérhannaðri Nafnavél.


Að gefa tvíburum nafn

Oft er erfitt að velja nöfn þegar um tví- eða þríbura er að ræða. Flestir telja þó að um tvöfalda ánægju sé að ræða. Nafnið sem kannski var búið að velja eða var næst á lista passar mögulega ekki einum tvíburanum ef hinn heitir eitthvað allt annað. En á því eru réttilega skiptar skoðanir. Ýmsar hefðir eru þó til staðar sem fólk fer stundum eftir við að velja nöfn á tvíbura. Sé um tvær stelpur að ræða eru nöfn beggja amma barnsins valin handa þeim og ef um stráka er að ræða þá nöfn afanna.

Algengt er að tvíburar hafi báðir sama upphafsstaf á borð við Sigurður og Sveinn, Elín og Edda eða Davíð og Daníel. Annar kostur er að nota sömu endingu í nafninu á borð við Sveinn og Hreinn, Elín og Sigurlín eða Daníel og Gabríel.

Aðrar óvenjulegri aðferðir er að nota eitthvað þema til að velja nöfn eins og náttúruna, sjóinn, trúarbrögð, kvikmyndir eða ákveðið land. Til dæmis nöfnin Samúel og Ísak, Snær og Fannar eru bæði nöfn sem vísa til snjós, og að lokum Þór og Aþena sem vísa til goðafræðinnar. Þó er þetta vandkvæðum háð þar sem forsjá ríkisvaldsins er sterk hérlendis hvað nöfn varðar og er mannanafnanefnd þekkt fyrir allt annað en umburðarlyndi gagnvart nafnahugmyndum. Erlendis þekkist til dæmis að tvíburar heiti Paris og London.

Margir foreldrar fara ekki eftir neinum hugmyndum þegar nöfn eru valin. Oft eru nöfn valin sem einfaldlega passa vel saman, foreldrarnir kunna við eða þau telja passa barninu vel. Flestir reyna þó að láta nöfn sem fyrir valinu verða passa saman við eftirnafnið svo nafnið skapi góða heild.