Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Öryggi barnsins

Fátt er mikilvægara en að gæta öryggis þegar börnin eru annars vegar. Undanfarin ár hafa komið fram margar litlar en sniðugar vörur á markað sem ætlað er að auka öryggi á heimilum. Hér má fræðast um helstu ráðstafanir sem gera má á heimili, í bílnum eða umferðinni varðandi nýjasta fjölskyldumeðliminn.


Baðherbergi

Á baðherberginu er að mörgu að huga. Eins gaman getur verið að leika sér í vatni getur það reynst banvænt ef mistök eiga sér stað á baðherberginu. Mikilvægt er að vera með augun opin varðandi barnið og tryggja sem best allt umhverfi baðherbergisins.

Hvað þarf að passa varðandi baðker?

Ef barnið er í baði og situr t.d. í baðstól ofan í baðkerinu má aldrei víkja frá því. Fylgjast þarf með allan tíman sem barnið er ofan í baðkerinu þar sem það gæti oltið eða runnið og farið með munn og nef undir vatnsyfirborðið og kafnað. Börn kunna ekki að lyfta sér upp úr vatninu né hafa styrk til þess og getur því farið illa ef ekki er fylgst með þeim.

Hvað með sjampó og þess háttar?

Til eru sérstakar baðvörur fyrir ungabörn sem eru mildari en aðrar og ganga því ekki of nærri viðkvæmri húð þeirra. Gæta þarf að því að snyrtivörur og hreinsiefni sem geymd eru á baðinu, við baðkarið, í sturtunni og víðar séu ekki þar sem barnið nær til þeirra. Sama gildir um baðsölt og aðrar slíkar vörur sem stundum eru hafðar við baðkör til skrauts.

En baðinnréttingar?

Sama gildir um innréttingar á baði og innréttingar í eldhúsi. Gæta þarf þess vel að þær séu lokaðar og festa með þar til gerðum klemmum svo barn komist ekki í rakvélar, þvottaefni og annað sem reynst gæti hættulegt.

Hvað með klósettið?

Lítil börn sem jafnvel eru byrjuð að taka fyrstu skrefin sleikja og naga nær allt sem þau koma nálægt til að eyða kláða vegna tanntöku og vegna almennrar forvitni. Ráðlegt er því að hafa klósettið hreint ef barnið ráfaði upp að því og endurtæki smakka-leikinn eins og við aðra hluti.

Eitthvað annað?

Sé barnið komið í göngugrind eða farið að hreyfa sig um og eigi þess kost að komast inn á bað án þess að foreldrar taki eftir er ráð að temja sér að loka eða læsa baðinu til að fyrirbyggja hætturnar.

Ofangreindar upplýsingar voru fengnar hjá Rauða Krossinum og tryggingafélögum.