Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Öryggi barnsins

Fátt er mikilvægara en að gæta öryggis þegar börnin eru annars vegar. Undanfarin ár hafa komið fram margar litlar en sniðugar vörur á markað sem ætlað er að auka öryggi á heimilum. Hér má fræðast um helstu ráðstafanir sem gera má á heimili, í bílnum eða umferðinni varðandi nýjasta fjölskyldumeðliminn.


Herbergi

Í öllum herbergjum eru hættur sem geta reynst stórar fyrir litla fingur og forvitna einstaklinga. Gæta þarf þess vel að í barnaherbergjum, bókaherbergjum og öðrum að gengið sé vel frá þeim atriðum sem geta reynst hættuleg. Sé vel staðið að slíku getur litla krílið flakkað um húsið án þess að vera í teljandi hættu.

Hvernig er best að loka innstungum?

Í hverri innstungu hérlendis eru 230 volt sem geta tekið líf ungabarns sem sett gæti járnhluti eða annað inn í innstunguna. Til að fyrirbyggja slíkt slys er hægt að setja sérstaka tappa í innstunguna sem loka þá götunum tveimur sem hægt er að fá straum úr. Þessir tappar fást í barnaverslunum og hjá tryggingarfélögum.

Þarf að passa rafmagnsmillistykki sérstaklega?

Nóg er að hafa það hugfast að rafmagn er einnig í millistykkjum og að loka ónýttum innstungum í millistykkjum á sama hátt og innstungum á vegg. Einnig er ráðlegt að nota millistykki með rofa svo rjúfa megi straum sé ekki verið að nota þau raftæki sem tengjast millistykkinu.

Þarf að festa húsgögn?

Ef þú telur mögulegt að krílið gæti togað í hillu eða önnur húsgögn og fengið hana ofan á sig þá er ráð að festa það húsgagn við vegg eða tryggja það með öðrum hætti. Dauðsföll hafa orðið erlendis þegar þungir hlutir sem reistir hafa verið upp við vegg hafi fallið á lítil börn og valdið köfnun eða öðrum áverkum. Gott er að ganga um herbergin og skoða hvort eitthvað sé laust eða gæti reynst hættulegt.

Þarf að hafa neðstu hillur tómar?

Ekki er ráðlegt að hafa þær tómar þar sem slíkt veldur því að þyngdin er ofar í hillunni og eykur líkur á því að hún geti dottið fram fyrir sig ef togað er í hana. Hins vegar ætti að athuga hvað sé í neðstu hillum og hvort þar séu litlir hlutir, oddhvassir eða geti verið hættulegir á einhvern hátt. Einnig ætti að forðast að geyma mikil verðmæti þar sem krílin eiga það til að rífa í sundur eða slefa óhóflega á hluti sem verða á vegi þeirra.

Eitthvað annað?

Ef það gerist að barn fær rafstraum úr innstungu og foreldri þess sér það gerast þarf að stökkva til og kippa barninu frá innstungunni. Mikilvægt er að gera þetta eldsnöggt svo foreldrið sjálft fái ekki einnig straum. Að því loknu þarf að koma barninu sem allra fyrst undir læknishendur og hringja í 112 og fá leiðbeiningar um fyrstu viðbrögð. Einnig er gott að hafa hugfast að einstaklingur sem fengið hefur raflost getur farið í hjartastopp allt upp í 8 klukkustundum seinna. Því er mikilvægt að láta fylgjast með börnum sem fengið hafa í sig rafstraum í einn sólarhring eftir raflostið.

Ofangreindar upplýsingar voru fengnar hjá tryggingarfélögum hérlendis og Rauða Kross Íslands.