Fátt er mikilvægara en að gæta öryggis þegar börnin eru annars vegar. Undanfarin ár hafa komið fram margar litlar en sniðugar vörur á markað sem ætlað er að auka öryggi á heimilum. Hér má fræðast um helstu ráðstafanir sem gera má á heimili, í bílnum eða umferðinni varðandi nýjasta fjölskyldumeðliminn.
Í mörgum húsum eru stigar eða stigapallar sem litlu krílin eiga til að klifra upp í. Gæta þarf sérstaklega að því að stigi standi aldrei opinn, hvorki ofan frá né neðan, og að auga sé haft með stigum þegar börnin eru að leik.
Hvernig er öryggi í stiga best tryggt?
Besta og algengasta leiðin er að setja sérstök hlið við inngang í stiga að ofan og neðan. Þessi hlið eru útbúin sérstakri læsingu sem aðeins fullorðnir geta opnað. Hliðin eru um mittishá og geta litlu krílin því ekki klifrað yfir þau eða komist í gegnum rimla þess. Gæta þarf þess sérstaklega að hliðið sé vel fest og skorðað svo að tog barnsins eða þrýstingur geti ekki losað hliðið frá veggnum.
Hvar fást slík hlið?
Hliðin fást í flestum barnavöruverslunum og hjá mörgum tryggingafélögum. Ýmsar tegundir eru til og mismunandi útfærslur og er vel mögulegt að hliðið fáist í netverslunum erlendis í mörgum útgáfum. Mælt er þó með verslunum hérlendis.
Hvað kosta hliðin?
Verð hérlendis er um 4.000 - 6.000 krónur.
Hvernig líta þau út?
Fer útlit þeirra talsvert eftir tegund. Hér má sjá nokkur dæmi.
Ofangreindar upplýsingar voru fengnar hjá íslenskum tryggingarfélögum.