Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Öryggi barnsins

Fátt er mikilvægara en að gæta öryggis þegar börnin eru annars vegar. Undanfarin ár hafa komið fram margar litlar en sniðugar vörur á markað sem ætlað er að auka öryggi á heimilum. Hér má fræðast um helstu ráðstafanir sem gera má á heimili, í bílnum eða umferðinni varðandi nýjasta fjölskyldumeðliminn.


Stofa

Að öllu jöfnu eru stofur íbúða eða húsa helstu samverustaðir fjölskyldunnar og því algengast að börnin séu þar að leik og störfum. Verið er að horfa á sjónvarpið, tala saman, haldnar veislur og annað sem tengist daglegu lífi fjölskyldunnar. Það sem einna helst þarf að passa er að þetta er sá staður sem athyglin er oft á öðru en því hvað litla krílið er að gera. Oft heldur fólk að nóg sé að barnið sé sýnilegt til að slys beri ekki að garði - því miður er það ekki alltaf svo.

Getur sófasett verið hættulegt?

Passa þarf lítil börn sem liggja í sófanum að þau velti sér ekki á magann en þá geta þau átt erfitt með öndun ef sófinn er þannig að sessur eða púðar umlykja nef og munn þeirra. Þau hafa oft ekki styrk til að velta sér til baka eða rísa upp og koma í veg fyrir súrefnisskort. Einnig geta verið hættulegir hlutir inn á milli bakpúða og sessu sem börnin geta náð í og/eða sett upp í sig. Við þrif er ráðlegt að þrífa vel kverkar sófans og gæta þess að slíkt sé ekki til staðar.

Hvað með arin?

Mjög hefur aukist notkun fólks á arni heimila og er þar oft eldur eða sót. Ef eldur er í arni þarf að passa að svæðið sé vel lokað af svo barnið komist ekki nálægt arninum, ef eldur logar ekki er mögulegt að barnið setji upp í sig öskuna eða annað sem þar er. Þó aska sem slík sé ekki skaðleg í litlu magni getur það farið mjög illa með tennur og reynst mikill óþrifnaður.

En innstungur?

Í stofum eru oft margar innstungur á hinum ýmsu stöðum. Gæta þarf barnanna og setja tappa í innstungur svo rafmagnsslys geti ekki átt sér stað.

Hvað með lampa?

Standlampar og aðrar mublur sem eru þess eðlis eru oft völt og gæti lítið barn togað í rafmagnssnúru og velt viðkomandi hlut yfir sig eða á aðra. Gæta þarf því vel að hvernig slíkar lagnir eru lagðar og oft gott að fela lagnir undir teppum eða bakvið önnur húsgögn og takmarka þannig aðgengi barnanna að þeim.

Eitthvað annað?

Ef teppi eru á gólfum skal forðast að láta barnið liggja lengi á teppinu þar sem teppi innihalda mikið ryk og barnið er með öndunarfæri sín aðeins nokkra sentímetra frá gólfinu. Getur mikið ryk valdið óþægindum við öndun og ertingu hvers konar hjá barninu. Einnig skal hafa hugfast að barnið sleikir að öllum líkindum gólfið og því betra að hafa gólfin hrein og fín.

Ofangreindar upplýsingar voru fengnar hjá Rauða Krossinum og tryggingarfélögum hérlendis.