Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Meðganga

Hér getur þú nálgast ýmsar upplýsingar sem tengjast meðgöngunni. Meðal þess helsta er nákvæmt yfirlit yfir þroskaferli fósturs, myndir af fóstrinu á hverju stigi ferlisins, gröf yfir meðallengd og þyngd þess o.fl. Við hvetjum gesti til að fylgjast vel með þar sem margar nýjungar eru væntanlegar.



Ættleiðingar

Margar ástæður geta legið að baki því að pör geti ekki eignast börn með hefðbundnum hætti. Er þá kjörið að skoða þann kost að ættleiða barn. Hérlendis hafa starfað frá árinu 1978 samtökin Íslensk Ættleiðing sem hafa með höndum miðlun ættleiðinga fyrir Íslendinga.

Hvert er best að snúa sér til að fá upplýsingar?

Lög um ættleiðingar eru númer 130 frá árinu 1999 og má lesa hér. Dómsmálaráðuneytið veitir einnig ýmsar upplýsingar um ættleiðingar á heimasíðu sinni, en þar er sérstakur kafli um ættleiðingar. Félagið Íslensk Ættleiðing veitir yfirgripsmiklar og góðar upplýsingar á vefsíðu sinni.

Hver er kostnaður við ættleiðingu?

Kostnaður getur verið mjög breytilegur eftir því hvaðan barnið er að koma, hversu langan tíma ferlið tekur og hversu mikið umstang fylgir málinu. Greiða þarf m.a. fyrir uppihald barnsins, lögfræðikostnað og opinber gjöld svo sem dómskostnað og ferðakostnað kjörforeldra sem oftast fara ytra til að sækja barnið. Ekki er hægt að gefa áætlaða upphæð hér vegna þess hve breytilegur kostnaðurinn er eftir aðstæðum.

Hver eru skilyrði fyrir ættleiðingu?

Helstu kröfur stjórnvalda varðandi þá sem ætla að ættleiða barn, svonefnda kjörforeldra, er að þeir hafi náð a.m.k. 25 ára aldri og séu ekki eldri en 45 ára, þeir séu andlega og líkamlega hraustir, hafi ekki sakaferil að baki og geti framfleytt fjölskyldu með góðu móti. Sambúð þarf að hafa varað í a.m.k. þrjú ár og þar af hjúskapur í 1 ár. Sé fólk í óvígðri sambúð er gerð krafa um a.m.k. 5 ára sambúð.

Geta einhleypir ættleitt börn?

Já, einhleypir geta fengið undanþágu frá skilyrðum en hafa skal hugfast að stjórnvöld erlendis gera nær alltaf kröfu um hjúskaparvottorð og vilja að barn eignist bæði föður og móður. Í besta falli geta einhleypir búist við mun lengri biðtíma en hjón.

Er langur biðtími?

Biðtími er venjulega á bilinu eitt og hálft til þrjú ár frá því fólk skráir sig á biðlista.

Eru mörg börn hérlendis ættleidd?

Undanfarin ár hafa verið ættleidd um 15-24 börn árlega hingað til lands frá löndum eins og Indlandi, Rúmeníu, Kólumbíu, Kóreu, Indónesíu, Guatemala og Sri Lanka. Fyrstu börnin sem hingað voru ættleidd eru nú að nálgast fertugsaldur.

Eitthvað annað?

Ráðlegt er að fólk íhugi vandlega málin áður en farið er út í ættleiðingu. Það getur tekið langan tíma að fá ættleiðingu samþykkta og krefst ferlið þolinmæði og þrautseigju foreldra og annarra sem koma að málinu. Einnig er ráðlegt að ræða við foreldra sem hafa ættleitt áður og kynna sér málin sem allra best.

Stuðst var við gögn lögum um ættleiðingar, gögn frá Íslenskri Ættleiðingu o.fl. við ritun textans.