Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Meðganga

Hér getur þú nálgast ýmsar upplýsingar sem tengjast meðgöngunni. Meðal þess helsta er nákvæmt yfirlit yfir þroskaferli fósturs, myndir af fóstrinu á hverju stigi ferlisins, gröf yfir meðallengd og þyngd þess o.fl. Við hvetjum gesti til að fylgjast vel með þar sem margar nýjungar eru væntanlegar.



Sónar

Sónar eða ómskoðun er nokkuð sem vel flestar óléttar konur sækja. Skoðunin gengur út á að greina fóstur og ganga úr skugga um að það sé heilbrigt og að þroski þess sé eðlilegur. Ómskoðun er ekki talin skaðleg og er hættulaus fyrir bæði móður og barn. Þó er ráðlagt að leita alltaf til fagfólks sem hefur sérhæft sig í ómskoðun með slíkar skoðanir.

Hvernig fer ómskoðun fram?

Í fyrstu þarf að panta tíma á spítala eða heilsugæslu. Þegar skoðunin hefst er köldu geli smurt yfir kvið konunnar og ómhaus strokið yfir legið. Mynd birtist þá á skjá ómtækisins og á aukaskjá fyrir framan konu og mann, ef hann er með í för. Gæði myndarinnar er breytileg. Lega fósturs í móðurkvið og líkamsþykkt móður hafa þar mikil áhrif. Ef myndgæði eru slæm þarf oft að þrýsta ómhausnum nokkuð þétt að kvið móðurinnar til að ná sæmilegri mynd.

Hvenær er best að fara í skoðun?

Þar sem ekki er nauðsynlegt að fara í ómskoðun er í raun um frjálst val foreldra að ræða hvað tímasetningu varðar. Flest börn fæðast heilbrigð en það er ekki alltaf svo. Ómskoðun leiðir oft í ljós fósturgalla eða annað sem valdið getur áhyggjum og kallað á oft erfiðar ákvarðanir. Best er að fara í skoðun við 11-14 viku (þá er metin meðgöngulengd, fjöldi fóstra, hnakkaþykkt og líkur á litninga- eða hjartagalla) og svo við 19-20 viku til að staðfesta meðgöngulengd, áætla fæðingardag, staðsetja fylgju og skoða fóstrið varðandi sköpulags- og líffæraafbrigða.

Er ómskoðun örugg staðfesting á heilbrigði barnsins?

Nei. Þó svo að ómskoðun gefi eðlilega niðurstöðu er það ekki fullvíst að ekki sé galli til staðar. Ómtæknin er ekki svo fullkomin að hægt sé að greina öll afbrigði sem möguleg eru hjá fóstrinu.

Hvað fæst með ómskoðun?

Í ómskoðun fá foreldrar mynd af fóstrinu (hver mynd kostar 100 krónur) en myndbandsupptökur eru að öllu jöfnu ekki heimilar á meðan skoðun stendur. Snjallt er að segja hjúkrunarfólki strax í upphafi ef óskað er eftir myndum. Kyn barnsins sést oftast nær í 19-20 vikna ómskoðun. Móðir barnsins ræður því hvort athugað er með kyn eða ekki.

Eitthvað annað?

Börn eru ekki æskileg með í ómskoðun. Helstu ástæður eru þær að lítið má trufla ómskoðara við störf sín, barn gæti orðið órólegt við að sjá oft undarlega og bjagaða mynd á ómskoðunarskjá og ef um galla væri að ræða á fóstri er oft ekki æskilegt að barn sé viðstatt þegar slíkt kemur í ljós.

Stuðst var við gögn frá Landspítala Háskólasjúkrahúsi við ritun textans.