Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Meðganga

Hér getur þú nálgast ýmsar upplýsingar sem tengjast meðgöngunni. Meðal þess helsta er nákvæmt yfirlit yfir þroskaferli fósturs, myndir af fóstrinu á hverju stigi ferlisins, gröf yfir meðallengd og þyngd þess o.fl. Við hvetjum gesti til að fylgjast vel með þar sem margar nýjungar eru væntanlegar.



Kyn

Kyn barns er hægt að greina í sónarskoðun og breytilegt er hvort foreldrar vilji almennt fá að vita kyn strax eða bíða þangað til barnið fæðist. Kyn er oft eitthvað sem báðir foreldrar hafa gert sér ákveðnar hugmyndir um og fylgir því oft mikil spenna að sjá hvers kyns barnið er.

Er einhver leið að sjá hvers kyns er?

Eina leiðin til að fá staðfestingu á kyni er að læknir staðfesti kyn eftir skoðun. Í sumum tilvikum er hægt að ákveða kyn fyrirfram ef um glasafrjóvgun er að ræða.

Hvað bendir til þess að barnið sé strákur?

Margar þjóðsögur og húsráð eru til sem ætlað er að greina ef kona gengur með strák. Verða hér nefnd nokkur dæmi víðsvegar að úr heiminum. Ef hjartsláttur barnsins er undir 140 slögum á mínútu, ef kúlan stendur langt út í loftið, ef kúlan vísa niður á við, ef móðirin var ekki með morgunógleði á fyrrihluta meðgöngunnar, ef hægra brjóstið er stærra en það vinstra, ef móðirin horfir á sig í spegli og sjáöldrin þenjast út, ef móðirin er æst í saltan mat, ef fætur móðurinnar kólna hraðar en áður, ef giftingahringur er látinn hanga í bandi yfir maga og snýst í hringi, ef húðin er þurr, ef konan sefur á vinstri hlið, ef þvag er ljósgult, og að lokum ef fyrra barnið þitt sagði fyrst "pabbi" er líklegra að það næsta verði drengur. En enn og aftur ítrekum við að hér er um húsráð og sögur úr mörgum heimshornum að ræða sem eru langt frá því að vera læknisfræðilegar staðreyndir.

En stelpa?

Þjóðsögurnar hafa margar skýringar til að auðvelda greiningu á því að stelpa sé undir belti. Meðal þess er ef hjartsláttur barnsins er yfir 140 slögum á mínútu, ef kúlan stendur langt upp, ef móðirin var með morgunógleði á fyrstu 12 vikum meðgöngunnar, ef vinstra brjóstið er stærra en hitt, ef móðirin horfir á sig í spegli lengur en 1 mín og sjáöldrin þenjast ekki út, ef móðirin þráir sætindi, ef giftingahringur bundinn í band sveiflast frá hægri til vinstri sé hann látinn hanga yfir maganum, ef húðin er mjúk, móðirin sefur á hægri hlið líkamans, hár hefur þynnst á meðgöngunni, þvag er dökkgult og að lokum fyrra barn sagði fyrst mamma.

Er hægt að stýra kyni með einhverjum hætti?

Uppi eru ýmsar sögusagnir um slíkt en ekki er læknisfræðilega nein leið til þess að stýra kyni barns með ákveðnum aðferðum við kynlíf eða annað slíkt.

Eitthvað annað?

Margir foreldrar vilja láta koma sér á óvart við fæðingu og sjá hvers kyns er en aðrir vilja strax fá að vita kynið svo undirbúa megi komu krílisins í heiminn. Mikilvægt er að segja frá því í sónarskoðun ef halda á kyni leyndu fram að fæðingu.

Stuðst var við gögn frá Landspítala Háskólasjúkrahúsi við ritun textans.