Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Meðganga

Hér getur þú nálgast ýmsar upplýsingar sem tengjast meðgöngunni. Meðal þess helsta er nákvæmt yfirlit yfir þroskaferli fósturs, myndir af fóstrinu á hverju stigi ferlisins, gröf yfir meðallengd og þyngd þess o.fl. Við hvetjum gesti til að fylgjast vel með þar sem margar nýjungar eru væntanlegar.



Þungunarpróf

Fyrsta skrefið í meðgöngu flestra er að staðfesta þungun sína með óformlegum hætti heima við. Það er að öllu jöfnu gert með því að kaupa þungunarpróf, oft nefnt óléttupróf, sem fást í öllum apótekum.

Hvernig virka þungunarpróf?

Öll þungunarpróf virka þannig að þau leita eftir ákveðnu hormóni í þvagi eða blóði sem aðeins er til staðar þegar kona er með barni. Hormónið nefnist chorionic gonadotropin, skammstafað hCG, og er oft kallað óléttuhormónið. Finnist hormónið í þvagi eða blóði gefur prófið jákvæða niðurstöðu en finnist það ekki er prófið neikvætt. Talið er að þungunarpróf sem nálgast má í apótekum séu um 97% til 99% örugg.

Hvað ef prófið er jákvætt?

Ef kona er í vafa um að niðurstaða prófsins sé rétt er ráðlegt að endurtaka leikinn og taka annað próf. Ef það reynist einnig jákvætt er næsta skref að panta tíma hjá lækni sem gefið getur endanlegt svar. Vegna þess hve nákvæm prófin eru má telja yfirgnæfandi líkur á að kona sé með barni ef prófið reynist jákvætt.

Getur eitthvað skekkt niðurstöðu þungunarprófs?

Flest lyf sem seld eru í apótekum, getnaðarvarnarpillur og sýklalyf eru ekki talin hafa áhrif á niðurstöðu þungunarprófs. Aðeins lyf sem innihalda óléttuhormónið svonefnda geta valdið því að niðurstaða óléttuprófs yrði jákvæð og konan væri ekki ólétt. Lyf með slíkt hormón eru oft gefin vegna frjósemisvanda. Áfengi eða fíkniefni hafa ekki áhrif á þungunarpróf.

Eitthvað annað?

Ráðlegt er að tala við lækni strax og grunur leikur á þungun. Læknar eru mjög vanir að aðstoða konur við það sem framundan er ef um þungun er að ræða og geta einnig veitt svör við öllum spurningum sem kona og/eða maki hennar kunna að hafa um málið.

Stuðst var við gögn frá Bandaríska heilbrigðisráðuneytinu við ritun textans.