Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Meðganga

Hér getur þú nálgast ýmsar upplýsingar sem tengjast meðgöngunni. Meðal þess helsta er nákvæmt yfirlit yfir þroskaferli fósturs, myndir af fóstrinu á hverju stigi ferlisins, gröf yfir meðallengd og þyngd þess o.fl. Við hvetjum gesti til að fylgjast vel með þar sem margar nýjungar eru væntanlegar.



Kynlíf

Algengt er að fólk forðist kynlíf á meðgöngu og margir halda að það geti verið skaðlegt fyrir fóstrið að stunda kynlíf. Sem betur fer er það fátt annað en gamall áróður sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Löngun getur minnkað og aukist mikið, sérstaklega hjá móðurinni, vegna mikilla hormónasveiflna sem eiga sér stað í líkamanum. Margar konur finna þó fyrir aukinni þörf fyrir snertingu, faðmlög, kossa o.fl. á meðgöngunni.

Er örugglega í lagi að stunda kynlíf?

Já. Það er í stakasta lagi að stunda sem mest kynlíf á meðgöngunni. Mikilvægt er fyrir makann að gera sér grein fyrir því að konan er að fara í gegnum miklar breytingar andlega og líkamlega og oft er ekki ofan á það bætandi að forðast snertingu eða kynlíf vegna meðgöngunnar. Margir auka hins vegar kynlíf sitt á meðgöngunni þar sem ekki þarf að huga að getnaðarvörnum. Aukin slímmyndun í leggöngum á meðgöngu veldur því oft að konan verður næmari en áður. Því er allur gangur á viðbrögðum para við óléttu hvað kynlíf varðar.

Getur barnið skaðast?

Nei. Ekki hefur verið sýnt fram á tengsl kynlífs á meðgöngu og fósturláts eða annarra kvilla hjá barninu. Barnið er vel varið af leghálsi, belgjum og legvatni. Sé kynlíf stundað með aðila sem ekki er full þekking á líkamlegu heilbrigði ætti að ganga úr skugga um þau mál áður en aðhafst er frekar. Kynsjúkdómar geta valdið skaða á fóstrinu á meðgöngu og/eða við fæðingu (t.d. Herpes, ofl).

Hvers vegna forðast karlar oft kynlíf á meðgöngu?

Karlmenn eru margir mjög viðkvæmir þegar kemur að kynlífi og vilja helst ekki vita af þriðja aðilanum (barninu) nálægt kynlífsathöfnum. Aðrir telja að þeir geti mögulega skaðað fóstrið með kynlífi, jafnvel óttast að reka kynfæri sín beint í fóstrið, en slíkt er byggt á sögusögnum frekar en staðreyndum. Fóstrinu stafar engin hætta af kynlífi.

Verða karlmenn einhvern tíman æstari í kynlíf á meðgöngu?

Já nokkuð algengt er að menn verði æstari en áður þar sem breytingar á líkama konunnar komi þeim til. Brjóst stækka og konan verður næmari en áður. Einnig verða sumir mjög ánægðir með að sjá konuna ólétta og finna til stolts.

Geta samfarir komið af stað fæðingu?

Hormónar sem verða til við samfarir og samdráttur í legi við fullnægingu getur hjálpað til við að koma af stað fæðingu en eitt og sér dugir þetta ekki til að koma af stað fæðingu. Fleiri þættir þurfa að koma til svo að fæðing fari af stað. Því þarf ekki að hafa áhyggjur af því.

Hvaða stellingar henta þegar óléttan er orðin mikil?

Allar stellingar sem valda ekki þrýstingi á kúluna eru taldar í lagi. Meðal þeirra eru svonefnd hlið-við-hlið stelling, konan ofan á, eða maðurinn á hlið og konan á bakinu.

Eitthvað annað?

Ef kona hefur lent í fósturláti einu sinni eða oftar í fortíð er ráðlegt að ræða við lækni varðandi allt er tengist meðgöngunni - kynlíf þar með talið.

Stuðst var við gögn úr fræðibókum og frá Ljósmæðrafélagi Íslands við ritun textans.