Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Meðganga

Hér getur þú nálgast ýmsar upplýsingar sem tengjast meðgöngunni. Meðal þess helsta er nákvæmt yfirlit yfir þroskaferli fósturs, myndir af fóstrinu á hverju stigi ferlisins, gröf yfir meðallengd og þyngd þess o.fl. Við hvetjum gesti til að fylgjast vel með þar sem margar nýjungar eru væntanlegar.



Keisaraskurður

Algengast er að konur fæði börn sín með venjulegum hætti en stundum verður að framkvæma keisaraskurð. Er það helst gert ef barn snýr sér ekki eðlilega og er í sitjandi stöðu þegar komið er að fæðingu. Einnig er framkvæmdur keisaraskurður ef þess er óskað sérstaklega af móðurinni. Upprunalega voru slíkar aðgerðir framkvæmdar fyrr á öldum til að ná lifandi barni úr móður sem látist hafði í fæðingu.

Af hverju að fara í keisaraskurð?

Helstu ástæður keisaraskurðar eru ef fylgja liggur yfir legháls og rifnar þegar hann opnast. Við það getur farið að blæða og barnið verið í hættu. Mögulegur súrefnisskortur barnsins getur valdið því að framkvæma þurfi keisaraskurð strax. Ef móðir hefur verið veik og belgir rofnað og fæðing ekki gengið vel er hætta á sýkingu. Ef ör eftir fyrri keisaraskurði eða annað eru á leginu er hætta á að legið rifni við eðlilega fæðingu. Stundum gengur fæðing illa og útvíkkun stöðvast og barnið kemst ekki sína leið út. Konur með Herpes vírus á kynfærum geta sýkt barnið þegar það fer í gegnum fæðingarveg. Fylgja getur losnað frá. Oft eru börn sykursjúkra kvenna mun stærri en börn annarra kvenna og komast því ekki út með eðlilegum hætti. Einnig er mælt með keisaraskurði fyrir konur eldri en 35 ára.

Hvernig er undirbúningi háttað?

Ef kona velur sjálf að fara í keisaraskurð, þ.e.a.s. ekki er farið í hann vegna kvilla eða vandamála, er reynt að tímasetja hann sem næst áætluðum fæðingardegi svo barnið fái að vaxa eðlilega sem lengst. Daginn fyrir aðgerðina eru teknar blóðprufur, móður kynnt hvernig að málum verður staðið, skurðarsvæði rakað og stutt viðtal við svæfingarlækni. Daginn sem aðgerðin fer fram mætir móðirin, og hefur þá fastað frá miðnætti daginn áður og farið í sturtu að kvöldi og morgni, á fæðingardeildina og ljósmóðir tekur við henni.

Hvernig er móðirin deyfð?

Nokkrar leiðir eru færar hvað varðar deyfingu. Ein er mænudeyfing og hin er svonefnd utanbastsdeyfing. Mænudeyfing fer þannig fram að sjúklingur liggur í fósturstellingu eða situr í keng og stungið er með mjórri nál í bak sjúklings milli hryggtinda fyrir neðan annan lendarlið (á mannamáli í neðanvert bakið) þar til mænuvökvi lekur út og er þá sprautað staðdeyfilyfjum inn í mænuvökvann. Slík deyfing verður virk á 5 mínútum og endist í 3-5 klukkustundir. Utanbastsdeyfing er þannig að sjúklingur liggur í fósturstellingunni og stungið er sérstakri nál inn á milli hryggtinda og að utanbastsbilinu. Næst er þræddur örmjór leggur gegnum nálina og inn í utanbastbilið. Þar er leggurinn skilinn eftir og nálin fjarlægð. Í utanbastslegginn eru síðan gefin deyfingar- og/eða verkjalyf. Utanbastdeyfing er lengur að ná virkni en mænudeyfing eða 20-30 mín. Hliðarverkanir beggja deyfinga eru oft fall blóðþrýstings, öndunarerfiðleikar, þvagteppa og/eða höfuðverkur.

En aðgerðin sjálf?

Aðgerðin er í stuttu máli þannig að þverskurður er gerður fyrir ofan lífbeinið sem oft er nefndur bikiniskurður og liggur um 2cm fyrir ofan lífbein og er um 6-7 cm á lengd. Barnið er svo tekið út og skurði lokað. Einnig eru eldri aðferðir til í faginu en þessi sem hér er tíunduð er sú sem algengust er á Íslandi.

Eitthvað annað?

Helstu kvillar sem upp geta komið í kjölfar keisaraskurðar eru sýkingar í skurðsári, þvagfærasýkingar og slímhúðarflakk.

Stuðst var við gögn frá Landspítala Háskólasjúkrahúsi, frásagnir lækna, og erlendar fræðibækur um keisaraskurði við ritun textans.